Færsluflokkur: Bloggar
7.9.2009 | 18:27
Már seðlabankastjóri á von á annað hvort bata eða meiri "dýfu".
Már seðlabankastjóri er staddur erlendis. Hann segir fréttaveitum þar að hann reikni með að hagvöxtur verði hér á landi strax á fyrri helmingi næsta árs. Það væri mjög uppörvandi ef seðlabankastjórinn gæti sýnt okkur eitthvað til geta deilt þessari bjartsýni með honum. Ekki verður annað séð af því sem almenningur fær að vita hér um ástand mála en að óvissa sé svo mikil að stjórnvöld og stjórnsýsla séu á þvílíku jakahlaupi, að fáir geti litið upp frá hálum ísjökunum til að finna vænlega stefnu til að ná landi, áður en svikulir jakarnir sporðreisast og steypa örvæntingarfullum hlaupurunum á kaf í krapakaldan veruleikann, sem enn er verið að reyna að afneita.
Í tæpt ár hefur verið reynt að róa þá sem eru með erlendar skuldir með því að krónan muni fljótlega styrkjast. Því skyldi hún gera það? Það er búinn að vera bullandi halli á viðskiptum við önnur lönd í mörg ár. Tölur um talsverð umskipti í vöruskiptajöfnuði eru vissulega jákvæðar. Fréttaflutningur um þennan "viðsnúning" er vægast sagt villandi, því hér er einungis um að ræða hluta af utanríkisviðskiptum. Viðskiptajöfnuðurinn í heild er ennþá bullandi neikvæður.
Samkvæmt tölum sem byrst hafa á seinustu vikum hefur kaupmáttur ekki rýrnað um "nema" 7-15% frá Hruni. Launalækkanir virðast ekki ætla að verða teljandi miklar, nema hjá þeim sem misst hafa vinnuna. Krónan þarf því að lækka enn frekar til að ná fram meiri rýrnun á kaupmætti. Hálffleyting Krónunnar í byrjun desember s.l. og sú hækkun á gengi sem þvinguð var fram í kjölfarið hefur kostað almenning og þjóðarbúið meira en nokkurntíma verður hægt að reikna út. Hefði gengið fengið að vera lágt (EUR. á um 200 kr.), hefði verðbólga vegna innfluttra vara hækkað skart einsog gerðist í haust en síðan lækkað verulega. Með því að ýta genginu upp, án innistæðu fyrir því í hagkerfinu, hefur verðlag sveiflast miklu meira og verðbólga haldist há mun lengur en ella. Vegna þess hve verðtrygging lána er víðtæk hefur þessi mikla verðbólga gert stjórnvöldum nánast ókleyft að hækka Virðisaukaskatt, sem annars gæti verið tæki til að laga ríkisfjármálin og minnka kaupmátt og þannig stutt við gengi Krónunnar. Heilt ár er of langur viðbragðstími þegar hamfarir dynja yfir. Talað hefur verið um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gefið ráðamönnum hér í fyrrahaust tækifæri til að sýna fram á að stjórnvöld réðu við að marka stefnu út úr ógöngunum. Ríkisstjórn Geirs Haarde sat stjörf og lömuð af hræðslu í hálft ár á meðan vont versnaði. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, sýndi að vísu þá djörfung að skipa nefnd sem ráðast átti til atlögu við verðtrygginguna og koma með tillögur að færri leið út úr því feni. Nefndin, undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar, hafði ekki kjark til að taka málið föstum tökum. Sorglegt er, að það góða fólk sem skipaði nefndina, skuli hafa valið Gunguleiðina og skilað auðu í þessu mikilvæga máli. Ómældur skaði, sem ekki sér fyrir endann á. Aftur að viðbragðstíma. Eigum við að reikna með að sendinefnd AGS komi með Kampavín og konfekt til að hampa okkur fyrir hvað tíminn hefur verið notaður vel? Því miður á ég frekar von á að svipuhöggin fái að dynja. Seðlabankinn fer í vonlausa baráttu við að styrkja gengið og hækkar aftur stýrivextina (eins og seðlabankastjórinn er í aðra röndina að "lofa"). Fyrirtækin fá takmarkað rekstrarfé og það á háum vöxtum, uppsagnir og gjaldþrot aukast og "hagvöxtur" fyrri helmings næsta árs verður drifinn af 30-40 þúsund atvinnulausum, því varla leyfir AGS okkur að verða aftur með alvarlegan halla á ríkissjóð, eins lífsnauðsynlegt og það gæti annars orðið.
Til að koma að einhverju leyti í veg fyrir þessa hörmungarþróun verður að snúa við blaðinu. Hvort heldur sem AGS slakar út einni greiðslu af lánsloforði sínu núna eða ekki, þá verður að henda prógramminu út í hafsauga strax að aflokinni næstu umfjöllun og afgreiðslu þeirra. Niður með stýrivextina, burt með verðtrygginguna, niður með gengið (lægri vaxtagreiðslur til erlendra Krónubréfaeigenda) og 180 milljarða halla á ríkisjóð á ári næstu 3-4 árin og allsekki frekari erlendar lántökur í risavaxin raforkuverkfni. Nógu tæpt eiga orkufyrirtækin eftir að fara án þess að bætt verði við þá klafa.
Það þarf þor til að fara óhefðbundnar leiðir á komandi mánuðum. Ráðamenn verða að hætta að haga sér einsog þjóðin sé viðkvæmur unglingur á gelgjuskeiði, sem ekki má styggja með upplýsingum um hrollkaldan veruleikann. Tala þarf hreint út svo fólk fái að heyra tæpitungulaust að hér er flest fallvalt og að þjóðfélagslegt líf okkar hangir á bláþræði. Þannig verðum við að ná upp samstöðu og baráttuþreki fólks.
Ef núverandi ríkistjórn fær "Haarde - stjarfa - syndrómið" eða ætlar að lulla með AGS áætluninni, reikna ég með að ríkisstjórnin verði farin frá völdum áður en ár verður liðið frá Bessastaðaheimsókninni.
Hagvöxtur að nýju á fyrri hluta næsta árs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Samspil
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar